Hverju trúum við

Söfnuðurinn

Á Álfaskeiði 115 í Hafnarfirði er að finna hlýlegt safnaðarheimili þar sem allir geta notið sín vel í kærleiksríku umhverfi. Samkomur er alla laugardaga á hvíldardegi Drottins kl :11fh. Þú ert hjartanlega velkomin/n.

Boðunarkirkjan er fríkirkja, evangelísk mótmælendakirkja sem leitast við að boða fagnaðarerindið um Jesús Krist í samræmi við tilskipun hans til lærisveina sinna. Stofnfundur safnaðarins var haldinn í Reykjavík 9.apríl 1998

Við trúum því..

.... að heilög ritning þ.e biblían bæði gamla og nýja testamenntið sé kærleiksbréf frá okkar himneska föður til okkar mannanna barna, rituð af mönnum en innblásin af heilögum anda hans.

Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks. 2 Tím 3:16-17

.... að Guð faðir hafi sent sinn einkason í heiminn til þess að opinbera heiminum lyndiseinkunn sína, að hann er kærleiksríkur faðir sem elskar okkur meir en nokkuð annað.

Því að svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Jóh 3:16

....að Jesús tók á sig syndasekt mannkynsins og bar hana upp á krossinn og friðþægði þannig fyrir syndir okkar, hann reis á þriðja degi upp frá dauðum og steig upp til himins og situr nú við hægri hönd Guðs föður.

En vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli, er hann á sig lagði. Vér álitum hann refsaðan, sleginn af Guði og lítillættan, en hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir. Vér fórum allir villir vega sem sauðir, stefndum hver sína leið, en Drottinn lét misgjörð vor allra koma niður á honum. Jes 53:4-6

Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galelíu. Hann sagði, að Mannsonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi. Lúk 24:6-7

Því að Kristur gekk ekki inn í helgidóm höndum gjörðan, eftirmynd hins sanna helgidóms, heldur inn í sjálfan himininn, til þess nú að birtast fyrir augliti Guðs vor vegna. Heb 9:24

En Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar og settist um aldur við hægri hönd Guðs..Heb 10:12

....að heilagur andi varð ekki aðeins til eftir upprisu Jesú heldur var þátttakandi í sköpun heimsins og hefur gegnt mikilvægu hlutverki frá fyrstu tíð.

Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum.1Mós 1:2

Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig.Jóh 15:26

En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Jóh 16:13

....að heilög þrenning er: Faðirinn, sonurinn og heilagur andi. Þrjár persónur sem hugsa og starfa sem ein persóna.

Því að þrír eru þeir sem vitna í himninum: Faðirinn, orðið og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt. 1Jóh. 5:7

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum. Jóh 1:1-2,14

....að dag einn muni Jesús birtast í skýjum himinsins til þess að sækja sitt fólk sem hefur hér á þessari jörð valið hann sem sinn persónulega frelsara,vin og lífgjafa. Þetta er vonin sem býr í hjörtum okkar alla daga, að við fáum að vera og lifa um alla eilífð hjá kærleiksríkum föður okkar sem elskar okkur svo mikið að hann lagði allt undir til þess að endurreisa það sem óvinur Guðs og manna hafði eyðilagt.

Eins og elding sem leiftrar frá austri til vesturs, svo mun verða koma Mannssonarins. Matt 24:27

...Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð. Hann mun senda út engla sína með hvellum lúðri, og þeir munu safna hans útvöldu úr áttunum fjórum, himinskauta milli. Matt 24:30

Og ég sá nýjan himinn og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til. Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem,stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum. Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ Op 21:1-4

...að allt bendi til þess að við séum að upplifa síðustu tíma mannkynsins og að það styttist óðum í það að þessir atburðir munu eiga sér stað, enginn veit þó daginn né stundina, aðeins Guð faðir veit það en við erum hvött til þess að vera vakandi fyrir því sem er að gerast í heiminum og vera viðbúin/n.

Nemið líkingu af fíkjutrénu, þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum. Matt 24:32-33

En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.Matt 24:36

Vakið því þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur. Verið þér og viðbúnir því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi. Matt 24:42,44

Ofangreindir kaflar og vers eru eins og dropi í hafið af öllu því stórkostlega sem orð Guðs hefur að geyma, því viljum við hvetja þig til þess að kynna þér hvað orð Guðs, biblían hefur að segja þér. Ef þú ert að leita að sannleikanum og hefur ekki enn fundið þér samfélag, þá bjóðum við þig hjartanlega velkomin/n til þess að tilbiðja með okkur, við erum til staðar og tilbúin að lesa eða biðja með hverjum þeim sem leitast eftir því.

Leitið Drottins, meðan hann er að finna, kallið á hann, meðan hann er nálægur! Jes 55:6

Biðjið, og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýjið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða. Matt 7:7-8

Guð blessi líf þitt.